Wednesday, December 7, 2011

Opið bréf til ritstjórna og eigenda Vefpressunnar

Sú ofbeldisherferð sem vefmiðlar Vefpressunnar hafa nú lagst í gegn átján ára gömlu nauðgunarfórnarlambi er fordæmislaus og ógeðsleg. Í dag birti Pressan mynd af einum ákærðu kyssa brotaþola á skemmtistað. Stúlkan er auðþekkjanleg á myndinni þrátt fyrir lélega tilraun blaðamanns til að gera það ógreinilegt. Með þessu réttlætir Pressan nauðganir hafi brotaþoli sýnt af sér tiltekna hegðun fyrst, og í þessu tilviki er allt eins hægt að sjá af myndinni að ákærða hafi þröngvað sér upp á stúlkuna þegar á skemmtistaðnum. Þetta er ekki aðeins lágkúrulegt heldur skín beinlínis ógeðfelld fyrirlitning gegnum þennan fréttaflutning.

Aðrir miðlar Vefpressunnar eru ekki hótinu betri, eins og nýlegt viðtal Hlínar Einarsdóttur við kvenhatarann Svein Andra á ógeðismiðlinum Bleiku.is sýnir gjörla. Þar heldur hann því fram að nauðgunarkæran sé samsæri íslensks stjórnmálaflokks! Finnst ykkur slíkur málflutningur boðlegur? Á baksíðu Eyjunnar má svo finna skop þess efnis að maður hafi leitað á neyðarmóttöku eftir að hafa átt í skyndikynnum við femínista. Er ekki allt í lagi með ykkur?

Það er eins og ykkur hjá Vefpressunni sé skemmt yfir því að stúlku hafi verið svo gróflega nauðgað af hetjunni ykkar að hún þurfti að gangast undir aðgerð. Það þurfti lækni til að fjarlægja túrtappann eftir ofbeldi þessa manns sem þið svo kappsamlega hópist um að verja. Oft er talað um ábyrgð fjölmiðla í sambandi við umfjöllunarefni þeirra og efnistök en Vefpressunni er greinilega drullusama um ábyrgð. Þá loksins þið fjarlægðuð myndina af stúlkunni var skaðinn þegar skeður – er það rétt sem ég heyri að það sé til komið fyrir tilstilli lögmanns stúlkunnar en ekki þeirra fjölmörgu kvartana sem ykkur hafa borist í dag? Hefði það annars verið lausn ykkar að loka bara áfram á Facebook notendur?

Ég krefst þess að þið birtið opinbera afsökunarbeiðni á þessum viðbjóðslega gjörningi ykkar nema þið þá heldur kjósið að gangast við siðblindu ykkar og dálæti á nauðgurum.

Þormóður Sörli

ps. bréf þetta birtist einnig á vefsíðu minni skuggsja.blogspot.com


~


Skömmu eftir að bréfið var sent baðst Pressan afsökunar á myndbirtingunni. Hitt bíður enn að Vefpressan biðjist afsökunar á hinum sóða-„fjölmiðlunum“ sínum.

No comments:

Post a Comment