Thursday, December 8, 2011

„Afsökunarbeiðni“ Steingríms

Heldur þykir mér aum þessi seinni afsökunarbeiðni Steingríms Sævarr Ólafssonar (krúttleg mynd af honum engu að síður). Steingrímur harmar myndbirtingu Pressunnar „bæði sem ritstjóri og faðir“. Væri hann ekki faðir horfði málið vitanlega allt öðruvísi við. En gott og vel, það er ágætt að föðurhlutverkið hafi kennt honum einhverja sómatilfinningu. Skárra væri það nú ef hann brygðist við eins og Björn Ingi Hrafnsson sem hótaði Þjóðleikhúsinu slæmri umfjöllun á miðlum Vefpressunnar ef það hætti að auglýsa á síðum þeirra. Á sama tíma hefur Hlín Einarsdóttir, ritstýra Bleiks, lokað á alla Facebook-vini sína sem á einhvern hátt hafa komið að gagnrýni á þessa skítavinnuveitendur hennar – hef ég eftir áreiðanlegum heimildum (sjálfur hef ég ekki sóst eftir vinskap hennar þótt áreiðanlega sé hún ágæt).

Það skal hins vegar enginn segja mér að þessi afsökunarbeiðni komi úr lausu lofti eða að hér búi aðeins einlægni að baki – þótt kannski sé einlægni í henni að finna. Þrjú fyrirtæki hafa nefnilega hætt að auglýsa á Pressunni nú þegar. Þá ber þess að geta að einu tekjur Pressunnar eru í gegnum auglýsendur sína svo Steingrímur býr nú skyndilega við gríðarstórt skarð í bókhaldinu. Það kemur kannski ekki að sök þar sem Pressan er ekki vön að greiða pistlahöfundum sínum stökustu krónu fyrir að halda teljurunum í gangi, svo þessir fjármunir fara sjálfsagt að einhverju leyti beint úr hans eigin veski svo Björn Ingi sé nú ekki nefndur aftur.

Aftur að afsökunarbeiðninni. Vilji Pressan endurheimta æruna þarf starfsfólk hennar að sýna það í verki að þessi vinnubrögð samræmist ekki ritstjórnarstefnu miðilsins. Til þess þarf að koma til bæði viðhorfs- og efnisbreyting. Í fyrsta lagi skyldi Pressan athuga það að Egill Einarsson er meðal pistlahöfunda þar á bæ og raunar einnig Brynjar Níelsson og Sveinn Andri Sveinsson. Þessir menn eiga það sameiginlegt að vera haldnir kvenfyrirlitningu og þar sem einn hefur gantast með nauðganir hafa hinir tveir hjólað í fórnarlömb nauðgana. Pressan þarf að losna við þá eigi hún að öðlast einhvers konar trúverðugleika. Þá þarf Pressan einnig að sýna í verki að blaðamenn hennar geti fjallað á faglegan hátt um málefni er varða jafnrétti kynjanna og kynbundið ofbeldi svo ekki eilíflega halli á konur annars vegar og brotaþola hins vegar, eins og verið hefur hingað til. Allt yrði þetta þó líklega til lítils á meðan Pressan heyrir enn undir Vefpressuna. Það er ekki aðeins Pressan sem þarf að taka sig á, heldur einnig Eyjan og Bleikt. Meira um það síðar.

Þangað til Pressan sýnir viðleitni til að taka sig saman í andlitinu er afsökunarbeiðni Steingríms Sævarr orðin tóm. Og svona fyrst ég á annað borð nefndi auglýsingatekjur hér áðan hefur Ásgeir H Ingólfsson lagt til nokkuð sniðuga hugmynd um hvernig megi rýra þær enn frekar. Hugmyndin er raunar helst til bjartsýn (er fólk ekki alltaf að finna nýjar og nýjar ástæður til að versla ekki við N1? Fyrirtæki gæti ekki haft minna almenningsálit þótt djöfullinn ætti það) og staðlaða bréfið sem hann leggur til er ekki nærri nógu róttækt. En þetta er byrjun. Góðar hugmyndir fæðast hægt og róttæk viðspyrna enn hægar. Einhver áhrif virðist almenningur þó hafa og viðbrögðin gegn myndbirtingunni vekur mér bjartsýni.

Því þrátt fyrir allt þá getum við. Já, þetta er aldeilis fín byrjun.

No comments:

Post a Comment