Wednesday, December 14, 2011

Hagsmunatengsl

Og ráðgefandi verjandi Egils Einarssonar er hver annar en Brynjar Níelsson! Af hverju kemur það engum á óvart? Hann virðist státa sig af því í fréttinni að hafa varið fleiri kynferðisbrotamenn en flestir (í fréttinni stendur að hann hafi verið fleiri „meinta“ kynferðisbrotamenn, en þar sem þeir hafa nær allir – ef ekki hreinlega allir – verið sekir þá er ekkert „meint“ við þeirra kynferðisbrot).

Brynjar Níelsson er sem fyrr getur formaður Lögmannafélagsins. Sama Lögmannafélags og tekur ekki afstöðu til stórklikkaðra ummæla Sveins Andra Sveinssonar um þetta mál sem kosta hefðu átt vítur hið minnsta. En það er nú líka kannski dulítið erfitt að víta þann sem er manni fullkomlega sammála um að Femínistafélagið sé deild innan Vinstri grænna!

Rifjum upp öll tengslin í þessu sóðalega máli, að því gefnu að sum þeirra séu tilfallandi. Brynjar og Sveinn Andri eru helstu verjendur nauðgara innan lögmannastéttarinnar auk þess að þeir báðir trúa því að femínismi sé pólitískt samsæri innan VG sem beint sé gegn nauðgurum og sjálfum sér. Báðir skrifa þeir eða skrifuðu í öllu falli á Pressuna. Þar skrifar/skrifaði Egill Einarsson líka. Pressan er sami miðill og hefur staðið í beinum árásum gegn stúlkunni sem ákærði Egil. Eigandi Pressunnar og annarra miðla Vefpressunnar er Björn Ingi Hrafnsson. Hann er í sambandi með Hlín Einarsdóttur sem er ritstýra Bleiks, eins miðils Vefpressunnar sem gengur út á það eitt að upphefja hundrað ára gamlar staðalmyndir um kynin. Bleikt birti drottningarviðtal við Svein Andra þar sem hann fabúlerar um að ákæran á hendur Agli séu pólitískar ofsóknir úr innsta hring VG. Ummæli sem Lögmannafélagið „tekur ekki afstöðu til“.

Er fólk svo hissa á að þetta lið hæfævi hvert annað?

1 comment:

  1. Ég legg til eftirfarandi vangaveltur:

    1. Að Brynjar hafi etv. varið mikið fleiri meinta nauðgara en kemur fram í fréttum, suma saklausa og því ekki óeðlilegt að nota orðið "meint". Hitt kann þó að vera rétt, að þeir hafi allir reynst sekir og afstaða þín þá réttlætanleg.

    2. Brynjar er nú kannski ekki að "státa sig" (í merkingunni að monta sig eða gera sig breiðan) af því að hafa varið nauðgara, heldur einfaldlega að benda á að í ljósi þess að hann hefur reynslu af að verja mál af þessu tagi - sem er jafnvel illa séð af samfélaginu (óvinsælt) - sé eðlilegt að leitað sé til hans.

    3. Brynjar hefur uppfært ummæli sín um VG og Femínistafélagið, nú heldur hann því fram að réttara sé að kalla VG hóp innan Femínistafélagins. Ég veit þó ekki hvort er nærra lagi. Útiloka heldur ekki að þetta sé mjög hæpið hjá honum, en hefur þó sýnst VG vera undir ansi miklum áhrifum femínista - sem er hið besta mál.

    4. Þeir trúa því vitanlega ekki að femínismi sé samsæri gegn sér innan VG. Það er skrípamynd (ekki ófyndin). Andri virðist þó telja að femínistar innan VG eigi hlut að máli - en er eflaust meðvitaður um að femínistar þar og annarstaðar standa fyrir sitthvað annað en að gera honum sjálfum eða nauðgurum erfitt fyrir.

    mbk,

    ReplyDelete